Um Íslendingafélagið í Linköping

 

 

Í gegnum árin hafa mörg íslendingafélög litið dagsins ljós í Linköping, en hafa verið lögð niður af mismunandi ástæðum. Fólk hefur til dæmis flutt heim til Íslands eða eitthvert annað í heiminum, en einnig hefur það gerst að félögin leggist niður hægt og rólega vegna áhugaleysis eða tímaskorts.

 

Í dag eru samkvæmt mínum heimildum til 4 virk og skráð íslendingafélög í Svíþjóð og vonast ég til að við í Linköping verðum það fimmta. Ef allt gengur samkvæmt áætlun verður félagið skráð í byrun 2010, sem vonandi verður til þess að félagið stækki eitthvað og að við getum farið að safna peningum til að gera eitthvað skemmtilegt saman.

 

Ástæðan fyrir því að ég (Viking) ákvað að koma af stað íslendingafélagi í Linköping er að þegar ég flutti hingað í ágúst 2007 átti ég frekar erfitt með að komast inn í samfélagið. Það var meðal annars vegna þess að reglur stofnana hér eru flóknar og erfiðar að skilja og svo er ótrúlega mikið af pappírum sem þarf að fylla í. Margar af þessum reglum gerðu mér einstaklega erfitt fyrir að setjast að hér.

Til að byrja með þurfti ég að hafa sænska kennitölu til að geta fengið bústað, vinnu o.s.frv, en til að geta fengið kennitölu þurfti ég að vera með heimilisfang til að skrá mig á. Þannig að, ekkert heimilisfang án kennitölu og engin kennitala án heimilisfangs.

Sama gildir um skilríki. Til að fá sænsk skilríki þarf maður að hafa sænsk skilríki fyrir, eða foreldra með sænsk skilríki sem geta staðfest að maður sé sá sem að maður segir að maður sé.

Það sem bjargaði mér með þetta allt var að ég hafði búið í Svíþjóð áður og það þurfti bara að virkja kennitöluna mína aftur, kærastan mín er sænsk og gat þess vegna leigt íbúð sem ég gat svo skráð mig á og pabbi kom í heimsókn og bjargaði málunum með skilríkin.

Þetta á ekki að þurfa að vera svona erfitt. Þess vegna er fyrirhugaður tilgangur minn með að koma þessu félagi af stað ekki bara að reyna að fá Íslendingana hér að byggja upp samheldni og vinskap, heldur einnig vekja áhuga fólks á íslenskri menningu, íslenskri tungu, landinu sjálfu og einnig að aðstoða ný-aðflutta Íslendinga við að komast inn í sænskt samfélag.

 

Þegar ég kom hingað datt mér strax í hug að leita að íslendingafélagi þar sem ég var vanur miklum samskiptum við aðra íslendinga þegar ég bjó í Skövde þegar ég var lítill. Leitin gekk hægt og ekkert sérstaklega vel þar sem félagið var þá ekkert sértstaklega vel augýst. Mér tókst þó að finna símanúmer hjá félaginu og komst að því að félagið var til húsa bara nokkrum húsalengjum frá mér. Þegar ég komst í samband við félagið fékk ég að vita að það væru ekkert sérstaklega margir félagar og ekki margir sem höfðu haft samband. Við þær fregnir varð ég strax áhugasamur um að aðstoða við að virkja félagið og reyna að fá fleiri meðlimi. Stuttu síðar flutti formaður heim til Íslands með fjölskyldu sinni. Sá flutningur varð til þess að eina íslendingafélagið sem ég fann var horfið.

 

Eftir þetta fráfall Svensk-Isländska familjeföreningen ákvað ég að það yrði að gera eitthvað í þessu. Það er ekki hægt að búa í bæ með uþb 136þúsund manns og ekki vera með íslendingafélag.

 

Þá hófst leitin. Til að koma af stað íslendingafélagi þarf maður að sjálfsögðu að hafa einhverja á bakvið sig sem hafa áhuga á að vera með og helst einhverja sem eru til í að taka að sér stjórnarstöður. Svo þarf að skrá félagið og svo er bara að byrja...

...hélt ég. En að sjálfsögðu gildir það sama um þetta eins og allt annað, pappírar sem þarf að fylla út og skila inn á rétta staði, ákvæði sem þarf að búa til og fundir sem þarf að halda áður en hægt er að skila pappírunum inn.

Skráning og rekstur félags er töluvert flóknara og meiri vinna en ég nokkurntíman bjóst við. Þess vegna ákvað ég að ég þyrfti hjálp og að gera þetta aðeins öðruvísi.

 

Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að fara að þessu og valdi að hafa samband við hin íslendingafélögin og fékk strax töluverða hjálp. Mér var einnig bent á að hafa samband við kirkjuna og fékk hjálp þar líka. Öll aðstoð sem ég hef fengið er ómetanleg og vonast ég til þess að mér takist að vinna úr öllu sem þarf að gera fljótlega. Ég vil sérstaklega þakka ÍMON fyrir skref-fyrir-skref listann yfir hvað ég þarf að gera.

 

Nú er bara að sjá til þess að halda áhuganum gangandi, halda hópinn og skemmta okkur saman.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tungumál/Språk

 

 

Hafa samband»